Lífið er stormhviða, vonirnar veikar, Vetrinum háðar sem smárósir bleikar, Ástanna blindhríð er bölvunarél. Leið vor á skerjóttum hafvillu hrönnum Hrælogum bálkynt af táldrægum mönnum, Gleymdu því aldrei að gæta þín vel.
Sigraðu lífið með sæld þess og hörmum, Sjáðu svo ljóma af deginum vörmum Ofar en táldraumum fjöldans er fært, Fjöldans sem reikar í villu og voða, Vanans í fjötrum, sem aldrei má skoða Sannleikans árblik, svo sigrandi skært.